154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Sérstaklega einmitt þegar stjórnvöld ganga inn á húsnæðismarkaðinn með ýmsum aðgerðum til að reyna að hjálpa fólki að kaupa og ýmislegt svoleiðis, en bara frá þeirri hlið; nota séreignarsparnaðinn til að lækka höfuðstólinn eða greiða inn á innborgun, hjálpa ungu fólki að kaupa, sem er gott og blessað, og allt þar fram eftir götunum. Þegar öll þessi úrræði eru í rauninni bara til þess að hjálpa fólki að kaupa en hvetja ekki til meiri byggingar þá er eiginlega fyrirsjáanlegt að staðan verði eins og hún er, meira að segja óháð fólksfjölguninni því að áður en fólksfjölgunin varð eins og hún hefur orðið tiltölulega nýlega var samt óuppfyllt húsnæðisþörf. Þróunin var sú að fleiri og fleiri voru farnir að búa í hverri íbúð. Fjöldinn var á leiðinni upp á við í staðinn fyrir niður á við, eins og markmiðið var í rauninni. Það er ekki allt sem kemur heim og saman þarna og ég held í alvörunni að einhver hafi tekið ákvörðun um það að viðhalda þessum skorti af því að efnahagslega mun það hafa þau áhrif að hækka íbúðaverð og laga þannig skuldahlutfall allra sem áttu þegar íbúð. Síðan kemur aðstoð fyrir ungt fólk til að komast inn á húsnæðismarkaðinn en það er bara tímabundin lausn af því að húsnæðismarkaðurinn fer þá enn þá meira á flug og hækkar enn þá meira. (Forseti hringir.) Það lagar skuldahlutfallið enn þá meira en þá verður þeim mun erfiðara að koma næstu kynslóð inn á húsnæðismarkað. Þetta er vandamál sem er búið að vinda upp á sig út af einmitt stefnu stjórnvalda núna.